Aldrei áður hafa norskar útgerðir fengið jafnmargar umsóknir um störf um borð í norskum fiskiskipum og frá svo mörgum ólíkum löndum. Flestum þessara umsókna er hafnað, að því er fram kemur á vefnum kystogfjord.no.
Þar er vitnað í orð útgerðarmanns á frystitogaranum Ramoen sem segir að hann fái að minnsta kosti 20 atvinnuumsóknir erlendis frá á viku. Þess er getið að hefð sé fyrir því að einn og einn Íslendingur eða Færeyingur sé til sjós á norskum skipum en síðustu árin hafi komið beiðnir um pláss frá Svíþjóð, Austur-Evrópu og í seinni tíð frá Suður-Evrópulöndum eins og Grikklandi og Spáni.
Ástæðan fyrir þessu er tvíþætt: Góð þénusta hefur verið á norskum fiskiskipum og atvinnuástandið er slakt víða í Evrópu.
Fram kemur að ekki sé mikil eftirspurn eftir sjómönnum erlendis frá og því sé flestum þessara atvinnuumsókna hafnað. Í mörg ár hafi um 5-10% af sjómönnum um borð í norskum fiskiskipum komið frá útlöndum og ekki sé útlit fyrir að það hlutfall eigi eftir að breytast.