Niðurstöður úr norsk-rússneskum rannsóknaleiðangri í Barentshafið benda til þess að mikið sé um þorskseiði á þessu hafsvæði. Mun minna er hins vegar af síldar-, loðnu- og ýsuseiðum.

Í fyrra var gott útlit með fyrsta árs síld en niðurstöðurnar sýna að sá árgangur virðist mun minni en vonir stóðu til.

Síðustu ár hafa norskir og rússneskir vísindamenn vitnað um met í útbreiðslu þorsks í norðan- og austanverðu Barentshafi.  „Að þessu sinni getum við ekki gefið frá okkur slíkar yfirlýsingar því hafís hefur hamlað rannsóknum á hafsvæðinu norðan við Svalbarða og í Norður-Barentshafi,“ segir Elena Eriksen hjá Hafrannsóknastofnun Noregs.

"Í fyrra fundum við mikið magn síldarseiða. Þetta var eini sjálfbæri árgangurinn síðan 2006. Við höfum hins vegar ekki orðið vör við þennan árgang í rannsóknarleiðangrinum nú. Fjarvera þessa árgangs og lélegur árgangur á þessu ári gefa ekki ástæðu til bjartsýni hvað varðar síldarstofninn," segir Eriksen.