Fyrstu niðurstöður úr leiðangri rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar sýna að magn makríls var mikið á íslenska hafsvæðinu en þó minna en mældist metárið 2012, þegar tæp 1,5 milljónir tonna mældust innan íslenskrar lögsögu. Einnig var umtalsvert magn makríls mælt í grænlenskri lögsögu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknastofnun í dag. Nokkuð varð vart við 3ja ára makríl frá Suðausturlandi til Vesturlands sem gæti verið vísbending um að árgangurinn frá 2010 sé stór, en þessi árgangur var einnig áberandi í rannsóknum Norðmanna og Færeyinga vestan við Noreg og í Noregshafi.

Síld fannst víða á rannsóknarsvæðinu, norsk-íslensk síld fyrir austan land og íslensk sumargotssíld fyrir sunnan- og vestanverðu landinu. Bráðabirgðaútreikningar sýna að hátt hlutfall norsk-íslenska síldarstofnsins var innan íslenskrar lögsögu.

Rannsóknir r.s. Árna Friðrikssonar eru þáttur í sameiginlegum rannsóknum Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga og Grænlendinga á dreifingu og magni helstu uppsjávartegunda á ætissvæðum í Norðaustur-Atlantshafi og umhverfisaðstæðum þar.

Úrvinnsla úr gögnum leiðangursins er ekki lokið en helstu niðurstöður þessara rannsókna munu birtast í sameiginlegri skýrslu þeirra aðila sem að leiðangrinum stóðu að loknum fundi

eftir miðjan ágúst.

Sjá nánar á vef Hafró