Landssamband smábátaeigenda (LS) furðar sig á því að línuívilnun í ýsu og löngu verði ekki framlengd til mánaðamóta.
„Einhver misskilningur, getur ekki annað verið!“ segir LS á vef sínum og lýsir vonbrigðum sínum.
„Stöðvun línuívilnunar veldur strax erfiðleikum hjá útgerðum dagróðrabáta og landverkafólki sem starfar við beitningu. Hér er um hundruð starfa að ræða og því mikið í húfi fyrir starfsfólk þeirra 34 útgerða sem fengið hafa línuívilnun,“ segir í bréfi LS til Svandísar Svavarsdóttur sjávarútvegsráðherra.
„Landssamband smábátaeigenda fer hér með þess á leit við yður að koma í veg fyrir stöðvun línuívilnunar með þeim hætti að tímabilum fyrir ýsu og löngu verði breytt þannig að við taki nýtt tímabil frá og með 3. febrúar til loka fiskveiðiársins.“
Viðmiðunarafla náð
Bréfið var sent til ráðuneytisins eftir að Fiskistofa tilkynnti að línuívilnun í ýsu og löngu yrði felld niður frá og með 3. febrúar síðastliðnum. Það er gert með vísan til reglugerðar sem heimilar Fiskistofu að fella niður línuívilnun þegar stefnir í að viðmiðunarafla hvers tímabils sé náð. Eftir það reiknist aflinn að fullu til aflamarks, en línuívilnun felst í því að dagróðrabátum með línu er heimilt að landa í ákveðnum tegundum 20% umfram þann afla sem reiknast til aflamarks þeirra. Það skilyrði er þó sett að beitt sé í landi, eða ef stokkað er í landi þá má umframaflinn vera 15%.
Ráðuneytisins sagðist í svari sínu til LS ekki telja tilefni til breytinga á reglugerðinni, og ekki verði því orðið við beiðni LS. Ráðuneytið bendir síðan á að aftur verði opnað fyrir línuívilnun frá og með 1. mars næstkomandi þegar nýtt þriggja mánaða tímabil hefst.
Landssambandið brást við með því að senda annað og ítarlegra bréf til ráðherra þar sem óskað er eftir því að þessi ákvörðun verði endurskoðuð.
Ekki ósk um meiri kvóta
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS, gerir sér enn vonir um að ráðuneytið bregðist við og leggur áherslu á að ekki sé verið að óska eftir því að veiðiheimildir í ýsu verði auknar.
„Við erum bara að biðja um að liðkað verði til í þessu, eins og gert hefur verið undanfarin ár og alltaf verið lítið mál,“ sagði hann þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn.
Hann segir það enn vera til vandræða víða á miðunum hve mikið af ýsu kemur sem meðafli í þorskveiðum, en Fiskifréttir hafa áður fjallað um þennan vanda sem jafnt smábátar sem stærri fiskiskip hafa lent í. Sjómenn og útgerðir hafa ekki getað brugðist við öðru vísi en að leigja sér viðbótar-ýsukvóta.
LS bendir í bréfi sínu á að afli til línuívilnunar í ýsu hafi verið skertur um 41% milli ára. Það sem af er fiskveiðiári hafi verið „nær vonlaust verið að fá leigða til sín ýsu. Stórútgerðin gleypir allt sem á markaðinn kemur eða framkvæmir skipti sín á milli.“
Auk þess hafi krókaaflamarksbátar undanfarin ár getað skipt á þorski og ýsu við aflamarksskip.
„Þannig hafa þeir getað aukið ýsuafla að meðaltali um 2.000 tonn ár hvert, en aflahlutdeild þeirra í ýsu er 15%. Nú ber hins vegar svo við að aðeins 415 tonn hafa fengist úr aflamarkskerfinu.“