Dreifing makríls og magn á ætissvæðunum við Ísland og Austur-Grænland er mikið og ekki eru neinar vísbendingar um að þar hafi orðið breytingar á miðað við fyrri ár, að því er segir í frétt frá Hafrannsóknastofnun um makrílleiðangur á Árna Friðrikssyni.

Þann 12. ágúst lauk 33 daga leiðangri Árna Friðrikssonar sem kannaði útbreiðslu og magn makríls í íslenskri og grænlenskri efnahagslögsögu. Verkefnið er þáttur í sameiginlegum rannsóknum Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga og Grænlendinga á dreifingu og magni helstu uppsjávartegunda á ætissvæðum í Norðaustur-Atlantshafi og umhverfisaðstæðum þar.

Úrvinnsla úr gögnum leiðangursins er lítt hafin, en helstu niðurstöður þessara rannsókna munu birtast í sameiginlegri skýrslu þeirra aðila sem að leiðangrinum stóðu að loknum fundi eftir 20. ágúst. Þó er ljóst að dreifing makríls og magn á ætissvæðunum við Ísland og Austur-Grænland er mikið og ekki eru neinar vísbendingar um að þar hafi orðið breytingar á miðað við fyrri ár.

Dreifing makríls náði norðar fyrir Norðausturlandi en áður og makríllinn við Austur-Grænland náði suður fyrir Hvarf. Ekki vannst tími til að fullkanna útbreiðsluna norðan við Ísland og eins við sunnanvert Grænland.  Leiðangursstjóri var Sveinn Sveinbjörnsson.

Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunar.