Myndatökulið frá BBC sjónvarpsstöðinni var nýlega við tökur neðansjávar við Andøya í Vesterålen í Noregi. Svo mikið líf var á svæðinu að mönnum þótti nóg um.
BBC vinnur nú að heimildarmynd um Golfstrauminn og var myndatakan liður í því verkefni. Norskur ljósmyndari aðstoðaði myndatökuliðið og tók sjálfur einstakar myndir. Sjá myndasyrpu HÉR . Hann sagði í samtali við norska ríkissjónvarpið að sjórinn hefði verið svartur af vaðandi síld og fjöldi hvala, háhyrningur, hnúfubakur og langreyður, hefði gætt sér á síldinni. Svo mikill var hamagangurinn að síldin þeyttist upp í loftið.
Mennirnir frá BBC fengu þarna kjörið tækifæri til að taka myndir neðansjávar en þeir kvörtuðu þó yfir því að það hefði verið of mikið af því góða. Erfitt hefði verið að koma myndatökuvélunum við, svo þétt var síldartorfan og mikil læti í hvölunum.