Hátæknifyrirtækið Micro í Hafnarfirði er að koma út úr stórum verkefnum og eru starfsmenn þess núna á leið til Spánar til að ljúka uppsetningu á vinnsludekki í Huldu Björnsdóttur GK. Þetta er eitt stærsta verkefni sem Micro hefur tekið að sér ásamt nýrri flokkunar- og pökkunarlínu fyrir laxasláturhús Arctic Fish í Bolungarvík.
Ekki er langt síðan Micro smíðaði vinnsludekkin í skip Gjögurs, Vörð og Áskel. Framundan eru ögn rólegri tímar en Micro, sem smíðar vinnslu- og flokkunarbúnað úr ryðfríu stáli, hefur undanfarin misseri fært sig yfir í alls kyns hátæknibúnað og hugbúnaðarlausnir sem byggja á myndgreiningu og fleiru.
Gunnar Óli Sölvason framkvæmdastjóri segir að nóg sé að gera þótt verkefnin séu ekki af sömu stærðargráðu og áður. Nú sé líka verið að sinna verkefnum sem ekki gafst tími til þegar allur krafturinn beindist að þessum stóru verkefnum.
Fjárhagslega stærstu verkefnin
Vinnsludekkið í Huldu Björnsdóttur GK var talsvert stórt og flókið verk. Í því felst allur vinnslubúnaður á millidekki og karaumsýslukerfi í lestinni. Ferlið verður þannig að fiskur kemur í móttöku á vinnsludekkinu þar sem hann er „stönnaður“, blóðgaður, slægður og flokkaður eftir tegund og stærð með myndgreiningarbúnaði. Þá er hver skammtur kældur niður í 0° Celsius í kjarnhita í drekakörum. Kerfið sem Micro smíðaði fyrir Arctic Fish í Bolungarvík er á hinn bóginn fjárhagslega stærsta verkefni fyrirtækisins. Byrjað var að slátra í húsinu í júní á síðasta ári og hefur sláturhúsið vakið athygli út fyrir landsteinana.
„Við höfum haft spurnir af því að það hafi verið talsverð traffík manna vestur til þess að skoða kerfið sem hefur reynst mjög vel. Við höfum líka farið vestur með áhugasama framleiðendur að skoða sláturhúsið og þeir hafa líka farið á eigin vegum. Þessir aðilar koma víða að úr Evrópu en líka aðilar sem tengdir eru vinnslum sem settar verða upp hérlendis á komandi árum. Besta auglýsingin fyrir okkur er að notendurnir séu ánægðir,“ segir Gunnar Óli.
Micro býður upp á mjög breiða lausn fyrir framleiðendur eins og gæðamat, flokkun, endalínu og pökkun í kassa, meðhöndlun á tómum kössum og nánast allt áður en þjarkar stafla vörunni á bretti.
Verkefni í Noregi
Micro er núna í verkefnum fyrir landvinnslu í Noregi og að þreifa fyrir sér meðal laxavinnslufyrirtækja þar í landi. Nýlega skilaði Micro af sér kassakerfi fyrir Mowi í Skotlandi, stærsta laxeldisfyrirtæki heims, og einnig er fyrirtækið með verkefni fyrir laxeldisfyrirtækið Salmar. Framundan eru líka verkefni fyrir Búlandstind á Djúpavogi.