Norsk kolmunnaskip eru orðin góðu vön og fæst nú metverð fyrir aflann á Írlandi. Nýlega landaði Nordervon í Killysbegs á Írlandi og fengu þeir um 3,77 norskar krónur fyrir kílóið af kolmunna til manneldisvinnslu. Þetta samsvarar um 78 krónum íslenskum á kílóið.
Þessar upplýsingar koma fram á vefnum sildelaget.no. Kolmunninn veiddist vestur af Írlandi. Haft er eftir stýrimanni um borð að veðrið hefði verið leiðinlegt fyrsta daginn á miðunum. Annan daginn tóku þeir afla sinn í fjórum holum; togað hefði verið stutt til að hráefnið hentaði sem best til manneldisvinnslu. Stýrimaðurinn sagði jafnframt að mikill kolmunni virtist vera á slóðinni.
Þar sem kolmunnakvótinn hefur verið skorinn niður í nánast ekki neitt í ár var fyrirfram búist við háu verði ef landað væri til manneldisvinnslu. Nordervon er einn af níu norskum bátum sem dreginn var út til að veiða 698 tonn á skip vestur af Írlandi. Áður hafði norska skipið Kings Cross landað kolmunna á Írlandi.