Norðmenn fluttu út uppsjávarfisk í aprílmánuði síðastliðnum fyrir um 402 milljónir NOK (8,5 milljarða ISK). Þetta er um 60% aukning miðað við apríl í fyrra, að því er fram kemur á vefnum kyst.no.
Það sem af er árinu 2011 nemur útflutningur á uppsjávarfiski frá Noregi um 2,8 milljörðum NOK (um 60 milljarðar ISK) sem er 23% aukning miðað við sama tímabil í fyrra.
Útflutningsverðmæti síldarafurða hefur aukist um 59% miðað við apríl í fyrra en aukning í makríl er um 90%. Þá hefur verð á frystri loðnu sem flutt var út í apríl hækkað að meðaltali um 15%.
Ástæðan fyrir þessum góða árangri er aukin eftirspurn á mörkuðum og hækkandi verð á uppsjávarafurðum. Niðurskurður á kvóta í norsk-íslensku síldinni um þriðjung frá síðasta ári skýrir það að kaupendur keppast nú um síldarafurðirnar.