Norðmenn fluttu út sjávarafurðir fyrir 91,6 milljarða króna á árinu 2016 sem jafngildir 1.212 milljörðum íslenskra króna. Þetta er 17 milljarða og 23% meiri útflutningur en metárið 2015.
Þessar upplýsingar koma fram á vef norska sjávarafurðaráðsins (Norges sjømatråd ) þar sem þessum tíðindum er fagnað. Um 67% af fiskútflutningi Norðmanna fer til Evrópulanda, eða 61,3 milljarðar.
Met í laxi og hvítfiski
Norðmenn fluttu út milljón tonn af eldislaxi og regnbogasilungi á árinu 2016 að verðmæti 65,3 milljarðar (864 milljarða ISK). Þetta er um 3,5 minna magn en árið áður en verðmætið jókst um 31%, eða 15,4 milljarða.
Útflutningur Norðmanna á hvítfiski nam 13,8 milljörðum (183 milljörðum ISK). Þetta er einnig metútflutningur og jukust verðmætin um 6% en magnið um 7%.
Aukning í makríl, síld og skelfiski
Útflutningur á makríl var 309 þúsund tonn að verðmæti 4,1 milljarður (54 milljarðar ISK). Þetta er samdráttur í magni um 12% en verðmætin jukust um 6%. Síldarútflutningur jókst hins vegar um 8% í magni og verðmætin uxu enn meir, eða um 28%. Alls skilaði síldin um 3,1 milljarði (41 milljarði ISK). Skelfiskurinn gaf 1,9 milljarða í útflutningsverðmæti (25 milljarða ISK). Þessi grein er í miklum vexti einkum útflutningur á kóngakrabba og snjókrabba.
Pólland mikilvægasti markaðurinn
Á árinu 2016 fluttu Norðmenn út sjávarafurðir til 146 landa. Pólland er stærsti einstaki markaðurinn. Pólverjar keyptu fisk af Norðmönnum fyrir 9,7 milljarða á árinu (128 milljarða ISK).
Frakkland er annar stærsti markaðurinn en þangað fór fiskur fyrir 7,9 milljarða (105 milljarða ISK).