Norðmenn fluttu út þorsk, ufsa, ýsu og annan hvítfisk fyrir um 1,16 milljarða króna (20 milljarða ISK) í nýliðnum aprílmánuði. Þetta er um 33% aukning frá því í sama mánuði í fyrra. Aldrei fyrr hefur útflutningsverðmæti norsks hvítfisks verið hærra í apríl.
Vertíðin byrjaði seint og mikið hefur verið flutt út af ferskfiski. Því var skortur á saltfiski framan af vertíð inn á mikilvægan markað í Portúgal. Þetta leiddi til þess að verð hækkaði og met var slegið í útflutningi á saltfiski til Portúgal í apríl. Alls jókst útflutningur á saltfiski um 69% í mánuðinum.
Útflutningur á þurrkuðum saltfiski dróst hins vegar saman um 16% og útflutningur á hertum fiski minnkaði um 55%. Mikil aukning varð í útflutningi á frystum afurðum. Til dæmis jókst útflutningur á frystum flökum um 23% í apríl og meðalverðið hækkaði um 25%. Þá jókst útflutningur á ferskum afurðum um 35%. Þar af jókst útflutningur á ferskum þorskflökum um 10% og meðalverðið var 65,52 krónur á kíló (1.133 ISK).