Norðmenn fluttu út sjávarafurðir fyrir 26,9 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins 2013 (449 milljarða ISK). Þetta er um 1,8 milljörðum meiri útflutningsverðmæti, eða 7,3%, en á sama tíma í fyrra, að því er fram kemur á vef norska sjávarafurðaráðsins.

Aldrei fyrr í sögunni hafa norskar sjávarafurðir skilað jafnmiklum verðmætum á hálfu ári og nú. Það er fyrst og fremst metútflutningur á laxi sem hleypir útflutningsverðmætinu upp. Hins vegar dróst útflutningsverðmæti annarra greina saman.

Á fyrri helmingi ársins fluttu Norðmenn út lax fyrir 17,4 milljarða króna (355 milljarða ISK) sem er 3,5 milljarða aukning frá sama tíma í fyrra. Meðalverðið á ferskum norskum laxi í júní var 40,97 krónur á kíló (836 ISK) en var 26,80 krónur í júní 2012.

Útflutningur á síld dróst saman um 914 milljónir á tímabilinu, eða 41%, og var 1,3 milljarðar. Útflutningur á makríl dróst saman um 443 milljónir, einnig um 41%, og var alls 643 milljónir.

Útflutningur á saltfiski (þurrkuðum) dróst saman um 144 milljónir, eða 9%, og var 1,4 milljarðar. Útflutningur á ferskum þorski, þar með talið flökum, jókst um 195 milljónir, eða 31%, og var í heild 818 milljónir.