Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS kom til heimahafnar á Ísafirði á sunnudaginn með um 184 milljóna króna aflaverðmæti eftir mánuð á veiðum. Þetta er mesta aflaverðmæti sem skipið hefur komið með að landi eftir eina veiðiferð.
Uppistaða aflans, sem er um 550 tonn upp úr sjó, er þorskur, ufsi og grálúða. Hraðfrystihúsið-Gunnvör í Hnífsdal gerir skipið út. Í tilefni af þessum góða árangri tók útgerðarstjóri skipsins á móti áhöfninni á bryggjunni með tertu sem menn gæddu sér á á staðnum.