Mjög góður gangur hefur verið í útflutningi á eldisafurðum það sem af er ári, samkvæmt samantekt SFS. Bandaríkin eru þar stærst en næst mest af eldisafurðum var selt til Hollands eða fyrir um 1,6 milljarða króna. Því næst kemur Danmörk með um 900 milljónir króna. Athygli vekur að útflutningur til Þýskalands vex stórum og slagar hann nú í hálfan milljarð. Annars staðar dregst hann nokkuð saman og nefna má Danmörku, Frakkland og Pólland en Holland stendur nokkurn veginn í stað. Þetta má lesa úr tölum Hagstofunnar sem nýlega voru birtar.

Aldrei jafnmikið

Aldrei áður hefur eins mikið af eldisafurðum verið flutt út til Bandaríkjanna í einum mánuði og í janúar í ár. Laxaafurðir eru um 95% af útflutningnum þangað. Verðmætið nam 2,3 milljörðum króna og er það langtum meira en í janúar 2024. Verður forvitnilegt að sjá hver framvindan verður fyrir íslenskan lax á Bandaríkjamarkaði á komandi mánuðum í ljósi boðaðra hækkana á tollum. Sem stendur er ómögulegt að geta sér til um hvort áformin muni hafa áhrif á útflutning frá Íslandi. Ef litið er nokkur ár aftur í tímann, til ársins 2019, kemur í ljós að hlutfall eldisafurða af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða í janúar og febrúar hefur aukist umtalsvert, úr 10% í 26%. Bara frá árinu 2022 hefur það rúmlega tvöfaldast. Það segir sína sögu um mikilvægi útflutnings á eldisafurðum fyrir land og þjóð.