Mikill botnfiskur hefur borist á land á Hjaltlandseyjum í ár og hefur ekki verið landað meira af hvítfiski þar í áraraðir, að því er fram kemur á vef Fishupdate.com.

Árið 2013 var einnig metár. Þá var landað á Hjaltlandseyjum 16.500 tonnum af hvítfiski (þorski, ýsu, skötusel o.fl.) Aflaverðmætið var 25 milljónir punda, eða 4,9 milljarðar íslenskra króna.

Löndunartölur eru yfirleitt gefnar upp í kössum og nam metlöndunin í fyrra rúmum 303 þúsund kössum. Þetta met hefur verið slegið í ár. Nú þegar er búið að landa þar yfir 305 þúsund kössum.

Hjaltlandseyjar, hafnirnar í Leirvík og Scalloway, eru meðal mikilvægustu löndunarhafna fyrir botnfisk á Bretlandi. Þær koma næst á eftir Peterhead. Meiri hvítfiskur berst á land á Hjaltlandseyjum en samanlagt á öllu Englandi, Wales og Norður-Írlandi.