Vesturbyggð vill að mat á þjóðhagslega arðbærum framkvæmdum við samgönguinnviði sé horft til þess hversu mikilvægir viðkomandi innviðir séu til að tryggja tekjur fyrir þjóðarbúið í heild sinni.

„Sem dæmi gegna samgönguinnviðir á sunnanverðum Vestfjörðum mikilvægu hlutverki við að koma fiskeldisafurðum innan svæðis og af svæðinu til útflutnings sem skapar mikilvægar tekjur fyrir ríkissjóð,“ segir í umsögn Vesturbyggðar um drög innviðaráðuneytins að samgönguátætlun fyrir tímabili 2024 til 2038.

„Útflutningsverðmæti afurða af sunnanverðum Vestfjörðum nemur um 27-35 milljörðum króna á ári, en eldisafurðir sem verða til í Vesturbyggð nema um 3 prósent af heildarútflutningsverðmætum landsins,“ segir í umsögninni þar sem því er beint til sameiginlegrar verkefnastofu innviðaráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins að líta sérstaklega á fyrrgreinda þætti.

Í bókun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá í gær er gerðar „alvarlegar athugasemdir við forgangsröðun jarðgangakosta og þá sérstaklega þær forsendur sem Vegagerðin hefur sett fram í tillögu sinni að forgangsröðun og birt á heimasíðu stofnunarinnar í júní 2023,“ eins og segir í bókuninni.

„Vesturbyggð krefst þess að umfjöllun Vegagerðarinnar um jarðgöng undir Mikladal og Hálfdán verði lagfærð, enda vantar að tilgreina þar mikilvægar forsendur og staðreyndir sem meðal annars eru settar fram um aðra jarðgangakosti og koma fram í forgangsröðun Vegagerðarinnar en er að öllu sleppt í umfjöllun um jarðgöng undir Mikladal og Hálfdán,“ segir bæjarstjórn Vesturbyggðar.