Framleiðsla á eldislaxi í Skotlandi vex jafnt og þétt og hefur aldrei verið meiri en á síðasta ári, að því er fram kemur í nýbirtum opinberum hagtölum.
Á árinu 2014 voru framleidd um 179 þúsund tonn af eldislaxi í Skotlandi sem er 10% aukning frá árinu áður. Framleiðsla á eldisfiski eins og regnbogasilungi, bleikju og lúðu jókst einnig.
Framleiðsluverðmæti alls eldisfisks í Skotlandi var 733,4 milljón pund (um 145 milljarðar ISK) á síðasta ári. Þótt Skotar séu mikil fiskveiðiþjóð gefur eldislaxinn meiri útflutningstekjur en nokkur önnur fisktegund og reyndar skilar engin matvara sem Skotar framleiða jafnmiklum útflutningtekjum og eldislaxinn.