Alls drukknuðu 39 í óhöppum tengdum frístundabátum í Noregi í fyrra. Er það mesti fjöldi síðan árið 2005 þegar 46 létust. Nærri helmingur þeirra sem drukknuðu var undir áhrifum áfengis.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Siglingamálastofnun Noregs sem kveður sambærilega tölu fyrir árið 2023 hafa verið 23 látna.
Afar sorglegt segir Siglingamálastofnun
Þriðjungur þeirra sem létust drukknuðu þar sem bátarnir lágu við festar og næstum helmingurinn var undir áhrifum sem fyrr segir. Kveðst Siglingamálastofnunin líta málið alvarlegum augum. Flestir, eða 21, drukknuðu í fyrra í mánuðunum júlí, ágúst og september. Það er fimmtán fleiri en í sömu mánuðum á árinu 2023.
„Þessi mikli fjöldi látinna á árinu 2024 er afar sorglegur og hann undirstrikar hversu mikilvægt það er að vinna kerfisbundið að því að bæta öryggi til sjós,“ er haft eftir Alf Tore Sørheim, settum siglingamálastjóra í tilkynningu stofnunarinnar.
Þess má geta að í Noregi er leyfilegt að vera með allt að 0,8 prómill áfengis í blóðinu við stjórn frístundabáta á móti 0,2 prómillum við stjórn ökutækja uppi á landi.