Óvenjumikið veiddist af alaskalaxi á síðasta ári þannig að birgðir hafa safnast upp. Var svonefndur bleiklax um 80% af veiðinni. Nú hefur landbúnaðarráðuneytið bandaríska ákveðið að kaupa niðursoðinn bleiklax fyrir 20 milljónir dollara (um 2,3 milljarða ISK). Verður laxinum dreift til fólks í neyð.

Heildaraflaverðmæti laxins á árinu 2013 var 691 milljón dollara (um 80 milljarðar ISK) og þarf að fara allt aftur til ársins 1988 til að finna meira aflaverðmæti. Það ár skilaði laxinn 724 milljónum dollara.

Í rökstuðningi ráðuneytisins fyrir þessum kaupum er lögð áhersla á hollustu laxins. Hins vegar var það öldungadeildarþingmaður frá Alaska sem beitti sér fyrir málinu enda er birgðasöfnun á niðusoðnum laxi og frystum laxaflökum mikið vandmál. Framleiðendur þurfa að leita nýrra markaða fyrir vöruna en jafnframt hvetja þeir stjórnvöld til að kaupa meira af laxinum fyrir þær stofnanir sem annast mataraðstoð.