Smábátaflotinn hefur aldrei veitt eins mikið og á síðasta ári eða 92.818 tonn. Aflaverðmætið nam 23 milljörðum króna og þá tölu má tvöfalda til að fá útflutningsverðmæti. Þetta kom fram í ræðu Arnar Pálssonar framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda á aðalfundi samtakanna sem stendur nú yfir í Reykjavík.

Alls fengu 1.041 bátur afla – 559 í krókaaflamarki, 140 í aflamarki og 342 eingöngu á strandveiðum. Alls voru 664 bátar á strandveiðum þar af tæpur helmingur bátar sem stunduðu einnig veiðar á öðrum tímum ársins.

Alls veiddu smábátar 58 þús. tonn af þorski sem jafngildir 23% af þeim þorski sem veiddur var í íslenskri lögsögu. Þá veiddu trillukarlar 47% af öllum steinbít.

Halldór Ármannsson lætur af starfi formanns LS á þessum fundi eftir þriggja ára formennsku. Tveir hafa boðið sig fram til formanns í hans stað: Axel Helgason úr Reykjavík og Þórður Birgisson á Húsavík. Formannskjör fer fram í dag, föstudag, og lýkur fundinum síðdegis.