Persónuvernd segir nauðsynlegt að framkvæmt verði mat á nauðsyn þess að eftirlitsmenn Fiskistofu fái aðgang að rafrænum vöktunarkerfum í löndunarhöfnum.
„Nánar tiltekið þyrfti að meta nauðsyn þess að notast við rafræna vöktun með leynd í þágu opinbers eftirlits af hálfu aðila sem fer ekki með lögregluvald,“ segir í umsögn Persónuverndar við frumvarp sjávarútvegsráðherra um eftirlit Fiskistofu, „og hvort brýn nauðsyn sé til þeirrar skerðingar á friðhelgi einkalífs einstaklinga sem slíkt eftirlit myndi fela í sér vegna þeirra hagsmuna sem eftirlitinu er ætlað að tryggja“.
Þetta mat þyrfti því að gera með tilliti til 71. greinar stjórnarskrárinnar, en þar segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu. Með dómsúrskurði megi þó takmarka friðhelgi fólks eða með sérstakri lagaheimild „ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.“
Lögregluvald
Persónuvernd ítrekar jafnframt athugasemdir sínar við ákvæði í frumvarpinu um að eftirlitsmenn Fiskistofu fái heimild til notkunar á fjarstýrðum loftförum við eftirlit, drónum eða flygildum.
Persónuvernd telur ekki æskilegt að stofnun sem fer ekki með lögregluvald fái heimild til vöktunar með leynd, sem væri „sambærileg þeim heimildum sem lögregla beitir í þágu rannsóknar sakamála.“
Persónuvernd segir að ríkar ástæður þurfi til að veita Fiskistofu lögregluvald. Standi vilji löggjafans til að „heimila Fiskistofu að viðhafa rafræna vöktun með leynd þá er það skoðun Persónuverndar að nauðsynlegt sé mat á nauðsyn vöktunarinnar með hliðsjón af kröfum 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Ísland og að niðurstöður þess mats séu skráðar í lögskýringargögn.“