Skotar fluttu út um 96 þúsund tonn af ferskum laxi á síðasta ári. Aukningin frá fyrra ári er um 22%. Aldrei fyrr hefur verið flutt jafnmikið út af ferskum laxi frá Skotlandi, að því er fram kemur á vef SeafoodSource.
Í frétt frá samtökum skoskra laxeldismanna segir að aukning hafi verið á útfluntningi nær samfellt síðustu sex árin. Útflutningurinn hefði nærri tvöfaldast á síðustu tíu árum.
Markaðir fyrir eldislax fara stækkandi. Skoskur eldislax er seldur til 64 landa. Mest er selt til Norður-Ameríku, eða um 45 þúsund tonn. Aukningin þar er 35%. Til annarra landa í Evrópu seldu Skotar um 40 þúsund tonn af laxi. Mesta aukningin hlutfallslega var þó til Asíulanda, einkum og sér í lagi til Kína.