Norskir fiskifræðingar fundu mjög mikið af síldarlirfum í árlegum lirfuleiðangri fyrir páskana. Menn bíða þó með fagnaðarlætin því lirfurnar eru sýnd veiði en ekki gefin, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.

,,Þetta segir okkur fyrst og fremst að við hrygningarstofninn er ennþá sterkur og að hrygningin hafi einnig tekist vel,” er haft eftir fiskifræðingi frá norsku hafrannsóknastofnuninni. Hins vegar er bent á þá staðreynd að þetta sé ekki ávísun á sterkan árgang sem gæti verið undirstaða mikillar veiði í framtíðinni. Lirfurnar týna fljótt tölunni ef skilyrði í sjónum eru ekki hagstæð.

Fiskifræðingarnir fundu um 25 þúsund lirfur á hverri mælingarstöð og ekki hefur mælst svo mikið fyrr. Endanlegar niðurstöður úr lirfuleiðangrinum verða birtar innan tíðar.

Nú fara í hönd síldarleiðangrar strandríkjanna sem nýta norsk-íslensku síldina, þ.e. Rússlands, Íslands, Færeyja og Noregs. Í þessum sameiginlegu leiðöngrum er síldarstofninn mældur og upplýsingum um ástand einstakra árganga safnað. Niðurstöður úr þeim rannsóknum verða svo grundvöllur ráðgjafar fiskifræðinga um það hve mikla veiði stofninn þolir hverju sinni.