Á nýliðnu ári var 89.418 tonnum landað í Reykjavíkurhöfn og er hún að venju sú höfn þar sem mestum botnfiskafla er landað, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.
Reykjavíkurhöfn ber höfuð og herðar yfir aðrar löndunarhafnir hér á landi þegar horft er til löndunar á botnfiski. Sú höfn sem kemur næst er Grindavíkurhöfn með 38.374 tonn og varð talsverður samdráttur á afla sem kom þar á land, eða um 17,2%.
Samdráttur í afla var víða um land. Mestur var samdrátturinn í magni talið í Grindavík, tæp 8 þúsund tonn, og á Ísafirði um 2,9 þúsund tonn. Mesta aukning frá fyrra ári var í Hafnafirði um 6,3 þúsund tonn og Bolungarvík um 4 þúsund tonn.