Íslendingar veiddu 9.300 tonn af þorski í Barentshafi í fyrra að meðtöldum 1.750 tonnum sem leigð voru af Rússum. Þetta er mesti þorskafli Íslendinga í Barentshafi frá því Smugudeildunni lauk árið 1999, að því er fram kemur í Fiskifréttum. Sjávarútvegsráðuneytið gaf nýlega út reglugerð um veiðar íslenskra skipa á Norðuríshafsþorski 2011. Til úthlutunar koma 8.800 tonn slægt. Á árinu 2010 nam úthlutunin um 7.570 tonnum. Aukningin milli ára nemur um 1.228 tonnum, eða 16%.
Á síðasta ári fengu íslensk skip úthlutað 4.661 tonni af þorski í norsku lögsögunni í Barentshafi og 2.912 tonnum í þeirri rússnesku. Skipin náðu að veiða þessar heimildir og gott betur því þau leigðu 1.747 tonn til viðbótar í rússnesku lögsögunni. Aflinn á síðasta ári, 9.300 tonn, er því mesti þorskafli sem Íslendingar hafa veitt í Barentshafi frá því sátt náðist í Smugudeilunni.
Á þessu ári geta Íslendingar svo bætt um betur og veitt tæp 10.800 tonn af þorski í Barentshafi ef þeir nýta sér heimildir til að leigja um 2.010 tonn af þorski af Rússum til viðbótar við úthlutaðar aflaheimildir.