Flutningur þorskaflamarks (kvóta innan ársins) milli skipa jókst úr 62 þúsund tonnum í 80 þúsund tonn milli fiskveiðiáranna 2012/2013 og 2013/2014, sem er það mesta í um áratug. Þetta gerist samhliða auknu aflamarki í tegundinni.

Þetta kemur fram á vef Fiskistofu, en þar er birt tafla um flutning aflamarks allra tegunda.

Fiskveiðiárið 2013/2014 er þriðja árið þar sem tekið er upp það fyrirkomulag að skerða úthlutað aflamark til skipa í öllum kvótategundum til að mæta sérstökum úthlutunum og strandveiðum. Skerðingin nam 4,8% að þessu sinni. Handhafar aflamarks höfðu svo forgang við að færa aftur til sín skerðinguna í skiptum fyrir aðrar tegundir.  Enn fremur gátu menn fengið til sín aflamark á svokölluðum skiptimarkaði. Í meðfylgjandi töflu má sjá umfang skiptanna á skiptimarkaðnum.  Markmiðið með þessum skiptum er að fá inn aflamark í þorski, ýsu, ufsa og steinbít til sérstakra úthlutana.