Mestum botnfiskafla á landsvísu var landað í Reykjavíkurhöfnum Faxaflóahafna á síðastliðnu ári samkvæmt gögnum Fiskistofu. 65.666 tonnum var landað á árinu 2024, sem er ríflega 15% af öllum botnfiskafla sem landað var á Íslandi það ár.
Þetta er aukning um rúmlega 7 þúsund tonn frá árinu 2023, sem má að einhverju leiti rekja til góðrar dragnótaveiði í Faxaflóa sem skilaði þúsund tonnum aukalega ásamt almennri aukningu í löndunum í Reykjavík. Landaður botnfiskafli í Vestmannaeyjum var 36.349 tonn og í Hafnarfirði 33.722 tonn.
Uppsjávarafli einungis 10.300 tonn
Það varð loðnubrestur árið 2024 sem varð þess valdandi að landaður uppsjávarafli varð aðeins 10.300 tonn í öllum höfnum Faxaflóahafna. Akraneshöfn er mikilvæg löndunarhöfn uppsjávarafla og varð loðnubresturinn þess valdandi að aðeins 8.930 þúsund tonnum af uppsjávarafla var landað þar á árinu 2024.