Á síldarárunum hér áður fyrr var norsk-íslensk síld helsta hráefnið sem fiskmjölsverksmiðjur hér á landi tóku til vinnslu, allt þar til veiðarnar hrundu 1968. Á síðasta ári náði norsk-íslenska síldin svo sínum fyrra sessi í mjöl- og lýsisiðnaðinum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Loðnan hefur undanfarna áratugi verið aðalhráefnið til framleiðslu á mjöli og lýsi. Til dæmis voru brædd tæpar 1,2 milljónir tonna af loðnu árið 2002. Sáralítið hefur verið veitt af loðnu á síðustu árum sem kunnugt er. Árið 2006 skaust kolmunninn í fyrsta sætið yfir bræðslufisk en þá voru brædd tæp 340 þúsund tonn af kolmunna en tæp 150 þúsund tonn af loðnu.
Síðustu 3-4 árin hafa kolmunnaveiðarnar einnig dregist umtalsvert saman. Á sama tíma hefur orðið stöðug aukning í veiðum á norsk-íslenskri síld. Á árinu 2009 reyndist norsk-íslenska síldin svo vera aðalhráefni fiskmjölsverksmiðjanna. Þá voru brædd um 188 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld, sem eru um 38% alls hráefnis í fyrra.
Á sama tíma og veiðar á nokkrum helstu uppsjávartegundum hafa dregist saman hafa tvær nýjar tegundir bræðslufisks látið til sín taka. Veiðar á makríl hófust hér við land árið 2007 og um 88 tonn af makríl voru brædd á síðasta ári, sem eru um 18% af hráefnisöflun verksmiðjanna.
Veiðar á gulldeplu hófust á síðasta ári og skilaði gulldeplan um 45 þúsund tonnum til fiskmjölsverksmiðjanna sem er sama magn og brætt var af íslensku síldinni.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum