Landssamband smábátaeigenda hefur tekið saman útflutning á ferskum unnum þorski (flök, roðflettir beinlausir bitar og aðrir beinlausir bitar). Það kemur á óvart að á fyrstu níu mánuðum ársins hefur mest verið flutt út til Frakklands. Frakkar hafa tekið við keflinu af Bretum sem hafa verið stórtækastir í kaupum á ferskum unnum þorskafurðum héðan undanfarin ár.
Útflutningur til Frakklands hefur aukist í magni til um 15% en dregist saman um 17% til Bretlands. Belgía er þriðji stærsti kaupandinn af ferskum unnum þorski en þar stóð magnið í stað milli ára.
Alls hafa verið flutt út á tímabilinu níu þúsund tonn af ferskum þorski að verðmæti 13,1 milljarður króna sem er aukning um 7% en magnið hefur dregist saman um 3% milli ára.
Meðalverðið í ár er 11% hærra í krónum talið en í fyrra.
Þau þrjú lönd sem hér hafa verið nefnd eru með 91% magnsins sem er óbreytt hlutfall frá fyrra ári.