Þorskur með rafeindamerki sem merktur hafði verið við Austur-Grænland 2008 veiddist úti fyrir Vestfjörðum nú í janúar, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.
Einar Hjörleifsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir í samtali við Fiskifréttir að nokkrir þorskar hafi verið merktir með rafeindamerkjum við Austur-Grænland í september 2008. Nú hefur eitt þessara merkja skilað sér.
,,Hita- og dýpisprófíll merkisins bendir til að þorskurinn hafi farið yfir til Íslands á fyrstu mánuðum ársins 2009 og hrygnt hér í marsmánuði það ár. Þetta má ráða af dýpis- og hitafari, því að ólíklegt er að þorskur hafi lent í sjö gráðu hita á 60 metra dýpi á vormánuðum við Grænland. Í framhaldinu virðist þessi þorskur hafa farið á Vestfjarðamið og haldið sig að mestu í hitaskilum þar þangað til hann var veiddur í lok janúar í ár,” segir Einar.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.