Allt er á réttri leið með fínstillingar og þjálfun mannskaps um borð í nýjum Baldvini Njálssyni GK. Skipið kom nýtt til landsins frá Argon skipasmíðastöðinni á Spáni í byrjun desember á síðasta ári og fór í sína fyrstu prufutúra síðar í sama mánuði. Arnar Óskarsson skipstjóri segir ýmislegt hafa komið upp á.
Arnar og allir í hans gengi smituðust af Covid 19. Hann greindist sjálfur aðeins seinna en aðrir og komst því ekki með þeim í síðustu veiðiferð. Nú eru allir á batavegi.
„Við höfum ekki enn þá náð heilum túr en svo fórum út 9. janúar og náðum einni viku. Það var allt að koma hjá okkur en þá kom þetta mikla smit upp og við urðum að halda til hafnar. Við stoppuðum í viku og fórum þá út aftur og gerðum alveg dúndurgóða viku með aflaverðmæti upp á 90 milljónir á sjö dögum. Við erum að komast á lappir með þetta og erum að klára þessar prófanir með norsku Optimar körlunum,“ segir Arnar.
Optimar er með helminginn af öllum búnaði á vinnsludekkinu, þ.e. sjálfvirka frysta og vöruhótel. Þennan búnað þarf að fínstilla og gengur það verk vel. Arnar segir að öðru leyti gangi skipið eins og klukka og hafi reynst gríðarlega vel.
Þeir voru við veiðar á Vestfjarðarmiðum í janúar. Þar var ágæt veiði en Arnar segir að þeir hafi ekki getað beitt sér á fullu heldur látið vinnsluna ráða för.
Moka upp ufsa
„Þeir eru að beita sér í ufsa núna suður af Reykjanesi og það gengur bara vel hjá þeim,“ segir Arnar sem er núna í landi með áhöfn sinni meðan kollegi hans, Þorsteinn Eyjólfsson og hans menn, moka upp ufsa.
„Ufsinn er dyntótt kvikyndi en það hefur verið góð veiði í heila viku og fjöldi skipa þarna. Verð á ufsa er í sögulegu hámarki núna. Reyndar eru öll verð á sjófrystum fiski gríðarlega há núna. Ufsinn hefur mikið farið inn á hótel- og veitingahúsin og það virðist vera að opnast mikið fyrir þann bransa. Það er mikil eftirspurn eftir fiski og það er eins og með alla aðra hrávöru að það virðist allt hækka í verði í þessu Covid-ástandi.“
Baldvin Njálsson GK er nýjasta viðbótin í fiskiskipaflota Íslendinga. Glæsilegur 66 metra langur frystitogari smíðaður eftir teikningum Skipasýnar. Arnar, sem áður var á eldra skipi með sama nafni sem hefur verið selt til Rússlands, segir skipið algjörlega frábært. „Það býr yfir alveg ótrúlega mikilli sjóhæfni og við gerum okkur varla grein fyrir veðri um borð í honum. Það hjálpar mikið til við alla vinnu með bretti og á lyfturum í lestum. Menn eru reyndar ekki farnir að slíta leðrinu í setustofunum því þeir hafa lítið getað tyllt sér þar. Menn bara vinna og sofa og það hefur verið mikið álag að koma þessu í gang.“
Vertíðarfiskirí framundan
Þegar rætt var við Arnar þegar skipið kom til landsins sagði hann mestu breytinguna fyrir mannskapinn að losna við allar lyftingaæfingar í lest. Hvorki þurfi að lyfta kössum né pönnum og allur frágangur á afurðunum verður mikið betri. Lestarvinnan verður ekki lík því sem áður var og varan er tilbúin á brettum, afurða- og stærðarflokkuð, plöstuð og tilbúin í gám. Þetta spari mikinn tíma og kostnað við löndun. Áður var grófflokkað í fjóra flokka en nú er hægt að flokka í 8-10 stærðarflokka.
Arnar segir framundan vertíðarfiskirí og hlakkar til vertíðarbyrjunar. Oft sé bullandi veiði og nú bætist við loðna sem fiskurinn elti. Það verði ekki langt að sækja á Suðvesturmiðin, Reykjanesgrunn og Eldeyjarbanka. Þetta verða mánaðarlangir túrar.

- Arnar Óskarsson skipstjóri. Aðsend mynd