Lífmassi norsk-íslenskrar síldar í Noregshafi jókst árið 2021 vegna sterks 2016 árgangs sem gekk inn í hrygningarstofninn. Lífmassi makríls og kolmunna hélt hins vegar áfram að minnka eins og undanfarin ár. Kolmunnaárgangar frá árunum 2020 og 2021 eru þó stærri en þrír síðustu árgangar þar á undan.

Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu vinnuhóps Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) sem meðal annars inniheldur samantekt um ástand vistkerfis og fiskistofna í Noregshafi og Hafrannsóknastofnun hefur birt.

Meðal þess markverðasta sem þar kemur fram er að innflæði Atlantssjávar inn í Noregshaf einkenndist ekki af tiltölulega köldum og seltuminni sjó, öfugt við það sem verið hefur síðustu 3-4 ár. Hlutfall pólsjávar haldi áfram að aukast í Noregshafi.

Þá kemur fram að fjöldi sjófugla sem verpa við strönd Noregs hafi lækkað mikið síðan talningar hófust árið 1980. Langvía er sögð í mikilli útrýmingarhættu sem varpfugl við strendur Noregs.

Ennfremur er greint frá því að lífmassi dýrasvifs, að vorlagi, hafi minnkað upp úr 2005 og verið lágur síðan samanborið við tímabilið 1995-2004. Árleg frumframleiðni var hins vegar meiri og vorblóminn varði lengur fyrir tímabilið 2013-2020 samanborið við árin 2003 til 2012.