Meginlínurnar í niðurstöðum makrílleiðangurs sumarsins eru nokkuð ljósar, þótt enn eigi leiðangursmenn landanna sex eftir að bera saman bækur sínar og ekkert verði formlega birt fyrr en á fundi vinnuhóps Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) öðru hvoru megin við næstu mánaðamót.

„Fyrir norðan þar sem við byrjuðum var mjög lítill makríll, sem er algengt,“ segir Anna Heiða Ólafsdóttir, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun og leiðangursstjóri á Árna Friðrikssyni. „Svo þegar við komum suður fyrir þá var makríll þar, og meira en í fyrra.“

Alls tóku sex skip frá fimm löndum þátt í leiðangrinum og á næstu dögum hittast leiðangursmenn frá öllum löndunum til að vinna úr niðurstöðunum.

Lítið við Noregsstrendur

Íslenski leiðangurinn kannaði svæðið fyrir norðan og sunnan Ísland, en Grænlendingarnir sáu um svæðið milli Íslands og Grænlands, Færeyingarnir leituðu makríls austur og suðaustur af Íslandi, Danir sáu um Norðursjó en Norðmenn tóku að sér stærsta svæðið vestur af Noregi allt norður að Svalbarða.

Norska hafrannsóknastofnunin, Havforskningsinstituttet, hefur greint frá því að óvenju mikill makríll hafi fundist norðan og norðvestan til á leitarsvæðinu, bæði á austurhluta Jan Mayen svæðisins og suðvestur af Svalbarða.

Á hinn bóginn veiddist lítið af makríl meðfram ströndum Noregs, alla leið frá Hörðalandi í suðri og til Finnmerkur í norðri.

„Það var líka sláandi hve lítið fannst af ungmakríl meðfram Noregsströndum í ár samanborið síðasta ár,“ segir í frásögn norsku stofnunarinnar.

Þá greinir færeyska hafrannsóknastofnunin, Havstovan, frá því að mikið hafi veiðst af makríl á leitarsvæði færeyska skipsins, einkum þó á svæðinu suðvestur af Færeyjum.

Kemur ekki á óvart

Anna Heiða segir útkomuna ekki koma mjög á óvart. Þann áratug sem Hafró hefur tekið þátt í makrílleiðöngrum að sumarlagi hafi svæðið fyrir sunnan land alltaf verið besta svæðið en sjaldnast fundist mikið fyrir norðan.

„Þarna fyrir norðan er kalt og við gátum meira að segja ekki tekið allar stöðvarnar fyrir hafís, og þar af leiðandi var yfirborðshitinn kaldur, alveg niður í eina gráðu. Og þar er náttúrlega enginn makríll. Hann þolir ekki svo lágt hitastig og dræpist ef hann færi á svæðið meðan svona kalt er.“

Það sem af er vertíðinni hefur makrílveiðin gengið vel, betur en í fyrra, og það rímar vel við leiðangurinn. Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu eru nærri 60 þúsund tonn af makríl nú þegar komin á land, sem er mun meira en á sama tíma í fyrra.