Það sem af er þessu ári hafa Norðmenn veitt 624 hvali sem gefa um 700 tonn af hvalkjöti að verðmæti  rúmlega 500 milljónir íslenskar krónur. Veiðarnar hafa sjaldan gengið betur og eru mörg ár síðan jafnmörg dýr voru skotin. Í fyrra veiddu Norðmenn 509 hvali.

Verr gengur með sölu á hvalkjöti en varan er eingöngu seld á innanlandsmarkaði. Þetta er ekki nýtt vandamál í Noregi og eftir margra ára baráttu við að markaðssetja hvalkjöt voru Merkjavörusamtökin stofnuð sem áttu að vinna að markaðssetningu vörunnar innanlands. Samtökin voru stofnuð fyrir einum mánuði og hafa verið gagnrýnd af hvalveiðimönnum fyrir lakan árangur.

Hvalveiðimenn segja það ranga nálgun að markaðssetja hvalkjöt sem einstæða gæðavöru en ekki sem hversdagskost á borð hvers Norðmanns. Merkjavörusamtökin vilja ná þeim árangri að neysla hvalkjöts þyki í takt við tímann og vitni um góðan smekk. Samtökin hafa fengið í lið við sig nokkra af færustu matreiðslumeisturum landsins til þess að vitna um ágæti hvalkjötsáts. Hvalveiðimennirnir segja á hinn bóginn að hinn hefðbundni neytandi hvalkjöts hafi gleymst í markaðsherferðinni.