Þangtekja er talin hafa þau áhrif á fiska að þorskur er marktækt stærri á ósnertum samanburðarsvæðum en fiskur á slegnum svæðum hafi auðveldara aðgengi að fæðu. Þetta er meðal niðurstaðna í rannsókn á áhrifum þangtekju á lífríki fjöru sem Hafrannsóknastofnunin stendur fyrir í samvinnu við Háskóla Íslands og Sjávarlíffræðistofnunina (MBA) í Plymouth í Bretlandseyjum.
Í rúm 50 ár hefur klóþang (Ascophyllum nodosum) verið nytjað í Breiðafirði. Þangið er slegið í fjöru með þangsláttuprömmum og flutt til verkunar á Reykhólum.
Í skjólsælum fjörum í Breiðafirði voru net með misstórum möskvum lögð innan um klóþang til að fylgjast með árstíðabundnum breytingum á fiskum í fjöru. Til að kanna áhrif þangtekju á fiska voru borin saman afmörkuð svæði, annars vegar þar sem klóþang hafði nýlega verið slegið og hins vegar svæði sem voru ósnert. Borin var saman tegundasamsetning, stærð, aldur og fæðuval fiska. Alls veiddust níu tegundir fiska. Algengastir voru ufsi og þorskur sem sækja inn í fjöruna þegar flæðir að og færa sig úr fjörunni áður en fjarar út. En líka marhnútur sem er staðbundinn í fjörunni, en heldur sig undir þangi eða í fjörupollum þegar fjarar út. Ungur þorskur og ufsi voru algengir um sumarið, sem bendir til að þessar tegundir nýti sér fjöruna sem uppeldisstöð yfir sumarið.
Þó að heildaráhrif þangtekjunnar virtust vera lítil, var þorskurinn þó marktækt stærri á ósnertum samanburðarsvæðum, en fiskurinn á slegnum svæðum sem þó hafði fjölbreyttara fæðuval. Þetta gæti bent til þess að fiskur hafi auðveldara aðgengi að fjölbreyttri fæðu á botni innan um klóþang, þegar það hefur verið grisjað.
Magainnihald sýndi meiri fjölbreytni í fæðu fiskanna á svæðum þar sem þangskurður átti sér stað en á óslegnum svæðum, sem bendir til að grisjun þangs hafi mögulega áhrif á fæðuaðgengi. Þessar niðurstöður sýna að klóþang er mikilvægt búsvæði, sérstaklega fyrir ufsa, sem uppeldisstöð og fæðuuppspretta og undirstrika þörf á varúðarnálgun við nýtingu fjörunnar.
Rannsóknina í the Journal of the Marine Biological Association of the United Kingdom má finna hér.