Grænlenskir embættismenn hafa gengið frá samkomulagi við ESB um fiskveiðar skipa frá ESB í grænlenskri lögsögu á árinu 2017. Samkomulagið bíður endanlegrar staðfestingar landsstjórnarinnar í Grænlandi. Þetta kemur fram á vef landsstjórnarinnar, Naalakkersuisut .
Samkomulagið byggist á viðmiðunarsamningi ESB og Grænlands fyrir árin 2016 til 2020. Skip frá ESB fá að veiða um 950 tonnum minna af rækju við Austur-Grænland á næsta ári en segir í viðmiðunarsamningnum. Í heild mega ESB skip veiða 4.150 tonn af rækju við Austur-Grænland á næsta ári.
Veiðiheimildir ESB í úthafskarfa minnka einnig um 836 tonn þar sem karfastofninn, bæði neðri og efri stofn, er í slæmu ástandi. Kvóti í meðafla lækkar einnig um 226 tonn.
Á móti þessum skerðingum fá ESB skip 400 tonn af þorski aukalega við Austur-Grænland. Þau mega því veiða samtals 2.200 tonn af þorski við Austur-Grænland en viðmiðunarsamningurinn gerir ráð fyrir 1.800 tonnum á ári.
Grænlendingar geta ekki látið ESB hafa neina loðnu að þessu sinni, ekki nema loðnan finnist í veiðanlegu magni í janúar. Í viðmiðunarsamningum er hins vegar gert ráð fyrir að ESB fái 20 þúsund tonn af loðnu á ári.
Í staðinn fyrir fiskveiðiheimildir í grænlensku lögsögunni veitir ESB styrki til uppbyggingar sjávarútvegs í Grænlandi.