Danskur sjávarútvegur gæti gegnt lykilhlutverki í áætlun dönsku ríkisstjórnarinnar um að auka útflutning á matvælum um 50 milljarða (1.040 milljarða ISK) til ársins 2020. Þetta kemur fram á vef danska blaðsins Børsen.
Í skýrslu sem fiskframleiðendur hafa sent danska matvælaráðherranum segir að fái sjávarútvegurinn tækifæri til að velja hagkvæmustu leiðina gæti framleiðsla í fiskveiðum og fiskeldi aukist um 40%.
Í skýrslunni er meðal annars lagt til að stjórnmálamenn hætti að stjórna fiskveiðum í smæstu atriðum. Í staðinn eigi fiskimenn að hafa frjálsari hendur, innan ákveðins ramma um umhverfisvernd og viðhald fiskstofna.
Fiskveiðar og fiskeldi í Danmörk skila um 4 milljörðum króna á ári (83 milljörðum ISK). Útflutningur á fiskafurðum er hins vegar um 20 milljarðar á ári (415 milljarðar ISK) sem skipar Danmörk í hóp stærstu útflytjenda sjávarafurða innan ESB. Þess má geta að danskar fiskvinnslur flytja mikið hráefni inn sem unnið er til útflutnings.
Forsvarsmenn í dönskum fiskiðnaði taka fram að þeir vilji síður en svo þurrka upp miðin. Hins vegar þurfi greinin og fiskifræðingar að vinna saman við að ákveða kvóta sem endurspegli raunverulega stærð fiskstofna.