Þegar litið er til veiði og veiðidaga í strandveiðum er veiðitímabilið rúmlega hálfnað. Samkvæmt tölum frá Fiskistofu höfðu veiðst rúm 60% af heildarúthlutun í þorski sem var 10.000 tonn. Eftir var að veiða um tæp 4.000 tonn en mun minna hafði veiðst af öðrum tegundum, þar af einungis tæp 21,7% af ufsa.
Áætlaður fjöldi daga sem er eftir tímabilsins er 17, sem miðar við þá tegund sem mest hefur verið veitt af sem er þorskur. Dagafjöldinn er fundinn með því að deila meðalveiði þeirra veiðidaga sem þegar eru liðnir í það magn sem eftir er. Að óbreyttu má því ætla að strandveiðum verði að mestu lokið upp úr miðjum næsta mánuði, nema til komi auknar heimildir.
1.000 tonna viðbót í fyrra
Staðan var ekki ósvipuð í fyrra og útlit fyrir að strandveiðum yrði hætt snemma sumars. 7. júlí það ár var gefin út reglugerð þess efnis að alls 1.074 tonnum var bætt við aflaheimildir í strandveiðum sumarsins. Við breytinguna jukust aflaheimildir í þorski um 874 tonn sem fengust í skiptum fyrir heimildir á makríl á skipimarkaði, 50 ónýtt tonn voru færð frá frístundaveiðum og 150 ónýtt tonn vegna línuívilnunar.
„Með þessu hækkar hlutfall strandveiða af leyfilegum heildarafla þorsks upp í rúm 5% og hefur ekki svo stórum hluta leyfilegs heildarafla þorsks áður verið ráðstafað til strandveiða,“ sagði í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Þar sagði ennfremur að þessi ráðstöfun væri „liður í aðgerðum til að festa strandveiðar betur í sessi enda skipta strandveiðar sköpum fyrir margar fjölskyldur í landinu.“
Það sem af er tímabilsins hefur mesta heildarmagni verið landað á A-svæði, Vesturlandi, alls 3.655 tonnum, þar af 3.304 tonnum af þorski. Þar eru einnig flestir bátar með leyfi, alls 342 og fjöldi landana var kominn upp í 4.684. Á D-svæði, Suðurlandi – Borgarfirði, höfðu 153 bátar landað 1.563 tonnum, þar af 1.74 tonnum af þorski.