Hafrannsóknastofnun greinir frá því að frá árinu 2015, þegar skráningar  á  botndýrum  hófust í  haustralli  Hafrannsóknastofnunar, hafi yfir  600

tegundir verið greindar og á milli 7475 og 10800 eintök hafa verið talin árlega. Sýni hafa verið tekin á um 100 stöðvum árlega.

„Þessi gagnasöfnun er stórt skref í átt að því að afla grunnþekkingar á botnlífríki á djúpslóð umhverfis landið og gefur ákveðnar vísbendingar um það hvar ólík vistkerfi er að finna,“ segir í nýrri skýrslu um þessar skráningar.

„Árið 2015 hófst skráning botndýrameðafla við stofnmælingu botnfiska á djúpslóð að haustlagi og var markmið að halda úti árlegri langtímavöktun á botndýrum umhverfis Ísland. Þannig væri í fyrsta sinn hægt að fylgjast með mögulegum breytingum á lífmassa, fjölbreytileika og á útbreiðslu botndýra við landið og hugsanlega komu nýrra tegunda á djúpslóð. Botndýr eru tínd  úr  aflanum  og  þau  greind  til  tegunda,  talin,  vigtuð  og  skráð  inn  í  gagnagrunn.“

Stofnunin segir grunnupplýsingar  um  útbreiðslu  og  þéttleika  botndýra,  einkum  á  djúpslóð,  enn vera mjög rýrar. Því séu þessar upplýsingar mikilvægar  fyrir ýmsar rannsóknir og við ráðgjöf vegna viðkvæmra tegunda og búsvæða.

Auk skráningar hafa verið teknar yfir 3000 ljósmyndir af stórum hluta þeirra tegunda sem komið hafa upp.

„Sambærileg skráning botndýra hefur verið í gangi í Barentshafi og fleiri þjóðir á norðurslóðum standa  að  slíkum  skráningum  að  einhverju  marki.  Átak  í  skráningu  botndýrameðafla  á norðurslóðum hófst árið 2015 og hafa botndýrafræðingar farið á milli landa og tekið þátt í rannsóknaleiðöngrum  til  að  samræma  aðferðir  og  greiningar.“

Þá segir að AVS  rannsóknasjóður  í sjávarútvegi  hafi allt frá árinu 2015 styrkt  þátttöku  erlendra  botndýrafræðinga  í  rannsóknaleiðöngrum  í haustralli Hafrannsóknastofnunar hér við land.

Skýrsluna má nálgast á vef Hafró.