Ný heildarlög um áhafnir skipa heimila eigendum smáskipa að vera einir um borð þótt sjóferð standi lengur en 14 klukkustundir, að því tilskyldu að þeir séu lögskráðir annað hvort sem skipstjóri eða vélavörður.
Sé eigandi ekki um borð, eða sé hann ekki lögskráður sem skipstjóri eða vélavörður, þurfa að vera tveir skipstjórnarmenn með tilskilin réttindi.
Lögin voru samþykkt á næstsíðasta degi nýliðins þings, 15. júní síðastliðinn, og taka gildi um næstu áramót. Meðal margra nýmæla þar er að lögin ná nú ekki aðeins til íslenskra skipa heldur einnig erlendra skipa notuð eru í atvinnuskyni í 30 daga samfleytt á íslensku innsævi, eða samtals 90 daga á ársgrundvelli.
Þá verða bæði undanþágunefnd og mönnunarnefnd lagðar niður og verkefni þeirra færð til Samgöngustofu.
Ennfremur fá Landheldisgæsla Íslands og Samgöngustofa heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir fyrir brot á tilteknum ákvæðum laganna og reglum samkvæmt þeim.
Með stjórnvaldssektum er meðal annars ætlunin að tryggja betur að þau skip sem mönnuð eru miðað við 14 tíma reglu haldi sig innan þess tímaramma, en það er talið auka líkur þess að konur sinni störfum um borð í slíkum skipum.
Þetta er liður í því markmiði, sem horft var til við smíði laganna, að draga úr mun á þátttöku kynja í siglingum og sjósókn. Í sama skyni var orðfæri laganna sérstaklega skoðað og ákveðið að nota orðið „fiskari“ í staðinn fyrir „fiskimaður“ og „útgerð“ í stað „útgerðarmaður“.