Til að gæta að öryggi notenda Vestmannaeyjahafnar hefur hafnarráð þar veitt leyfi til notkunar eins slöngubáts frá hverju skemmtiferðaskipi innan hafnarinnar.
Þetta kemur fram í fundargerð framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja í dag. Greint var frá málinu á fréttamiðlinum eyjar.net.
„Vestmannaeyjahöfn er tiltölulega lítil höfn en mikil umferð er um hana, sérstaklega yfir sumartímann,“ segir í fundargerð ráðsins. Skilyrði fyrir notkun slöngubáta sé að þeir séu búnir AIS staðsetningarbúnaði auk annars öryggisbúnaðar sem kveðið sé á um í leyfi til siglinga. Tilkynni verði um sjósetningu bátanna til starfsmanna hafnarinnar.
Geta afturkallað leyfi fyrirvararlaust
„Leyfi þetta veitir ekki leyfi til að sigla að kvíum Beluga hvala eða nýta mannvirki sem þar eru á nokkurn hátt enda í eigu einkaaðila,“ er undirstrikað í fundargerðinni en þarna er verið að vísa til mjaldrasystranna tveggja, Litlu Hvítar og Litlu Gráu, sem fluttar voru frá Kína til Vestmannaeyja fyrir fjórum árum.
Þá segir að skemmtiferðaskip hafi ekki heimild til að sjósetja kajaka inna Vestamannaeyjahafnar þar sem mikil umferð sé innan hafnarinnar.
„Í þeim tilvikum þegar verið er að ferja fólk í land með tenderbátum/slöngubátum þá gilda þessar reglur ekki. Það á eingöngu við þegar farið er með fólk frá skemmtiferðaskipi beint að tenderbryggju,“ segir enn fremur í fundargerðinni þar sem tekið er fram að þetta leyfi verði endurskoðað án fyrirvara ef notkun slöngubáta torveldi eðlilega hafnarstarfsemi eða leggi öryggi sjófarenda í hættu.