„Staðan er ekki óljós núna en hún er dálítið undarleg,” segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri í Hafnarfirði um afnám sjávarútvegsráðherra á undanþágu rússneskra skipa til löndunar á afla úr fiskistofnum á alþjóðlegu hafssvæði sem ekki hefur verið samið um nýtingu á.
Bannið sem um ræðir nær einnig til þjónustu við þessi skip. Rússnesk skip gætu þó eftir sem áður landað grálúðu hér á landi sem þeir veiða við Grænland með samningum við Grænlendinga.
„Þetta er ekki almennt löndunar- eða viðskiptabann heldur eingöngu bann við löndun á karfa. Það eru lög í landinu sem banna skipum að landa fiski á Íslandi og fá þar þjónustu ef veitt er úr stofnum sem ekki er samkomulag um veiðar úr. Árið 1999 var veitt undanþága til rússneskra skipa sem fól í sér að þeir máttu landa karfa hér á landi og fá þjónustu. Þá hafði verið umræða um það að bannið þjónaði litlum tilgangi því rússnesku skipin höfðu líka landað í Færeyjum og menn vildu meina að bannið hefði ekkert upp á sig. Þeir gátu einfaldlega landað annars staðar og við misstum tekjur af þessu,“ segir Lúðvík.
Undanþágan hefur verið í gildi í bráðum 23 ár. Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu var jafnvel búist við að sett yrði almennt viðskiptabann á Rússa. Það hefur ekki verið gert. Sjávarútvegsráðherra tók hins vegar ákvörðun um að fella úr gildi undanþáguna frá 1999. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda ná því eingöngu til löndunar rússneskra togara á karfa sem veiddur er við Reykjaneshrygg. Alls er um að ræða tíu rússneska togara sem hafa stundað þessar veiðar yfir sumarmánuðina og veitt grálúðu í grænlenskri lögsögu á haustin sem hefur verið landað í Hafnarfirði eins og karfanum. Skipin hafa verið að veiðum frá lokum apríl og fram í október ár hvert. Umfang grálúðuveiðanna er þó umtalsvert minna en karfaveiðanna. Rússum er því enn heimilt að landa grálúðu á Íslandi þótt ólíklegt sé að grundvöllur sé fyrir því nú.
Landa í Færeyjum?
Tvö þessara skipa eru frá Kalíningrad við Eystrasalt og mörg undanfarin ár hafa þau haft vetursetu í Hafnarfjarðarhöfn. Þau hafa ekki veiðiheimildir í Barentshafinu eins og hin skipin átta sem eru frá öðrum svæðum Rússlands. Hafnarfjarðarhöfn hafði nálægt 50 milljónum króna í tekjur í fyrra vegna aflagjalda, hafnar- og viðlegugjalda þessara skipa. Auk þess hafa útgerðir skipanna keypt talsverða þjónustu innanlands og bæði skipin frá Kalíningrad eru nú í þurrkví til viðhalds. Undanþágan sem felld var úr gildi nær ekki til þessarar þjónustu.
Lúðvík kveðst ekki hafa neinar sérstakar áhyggjur af því að skipin tvö frá Kalíningrad dagi uppi í Hafnarfjarðarhöfn. Það séu verðmæti í þessum skipum.
„Þessi skip hafa líka landað talsverðu magni í Færeyjum. Það er ekkert sem segir mér að Rússarnir ætli sér ekki að veiða á Hryggnum í sumar. Ef þeir mega ekki landa á Íslandi landa þeir þá í Færeyjum? Þeir hafa líka landað í önnur skip úti á hafi. Norðmenn kaupa karfa af Rússum sem kemur úr Barentshafinu. Ég hef ekki séð fréttir um að norsk stjórnvöld hafi stöðvað þau viðskipti.“
Þvert á móti hafa norsk stjórnvöld lýst því yfir að rússneskum skipum verði ekki bannað að sækja þjónustu eða landa í norskum höfnum.