Í gær fór fram fyrsta kvótauppboðið í Færeyjum í langan tíma en þá voru boðin upp af hálfu stjórnvalda 1.200 tonn af kvóta í rússnesku lögsögunni í Barentshafi. Aðeins tvö fyrirtæki buðu í kvótann og hreppti útgerðin J.F.K. Trol allar veiðiheimildirnar fyrir sem svarar 55 íslenskar krónur á kílóið. Heildarupphæðin var um 65 milljónir ISK.
Um var að ræða 1.050 tonn af þorski, 100 tonn af ýsu og 50 tonn af flatfiski. Kvótinn var boðinn upp í 24 skömmtum sem voru 25-100 tonn hver. Hæst voru boðnar 100 ISK/kg í 60 tonna skammt. Lágmarksverð sem uppboðshaldarinn ákvað var 27 ISK/kg.
Næsta uppboð fer fram á fimmtudaginn kemur. Þá verða boðin upp 3.500 kvótatonn af makríl og 2.000 tonn af norsk-íslenskri síld, auk 600 tonna af þorskkvóta í rússnesku lögsögunni í Barentshafi.
Skýrt er frá þessu á vef færeyska útvarpsins.