Á síðustu árum hefur meðalþyngd á þorski í afla aukist og er með því mesta sem þekkist. Ýmsir þættir ráða þyngd í afla en miklu máli skiptir að þorskurinn sem nú veiðist er eldri að meðaltali en var í veiðinni á árinu 1991.

Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum. Þar er fjallað um meðalþyngd á þorski í afla fiskiskipa á árunum 1955 til 2014. Þeir þættir sem skipta máli varðandi meðalþyngd eru meðal annars styrkur áraganga sem koma inn í veiðina, veiðihlutfall og holdafar sem ræðst af fæðuskilyrðum.

Þróunin frá árinu 2004 er mjög áhugaverð. Meðalþyngd frá þeim tíma hefur hækkað úr tæpum 3 kílóum og upp í tæp 3,8 kíló árið 2014 sem er mikil aukning. Að stórum hluta má skýra það með lækkun á veiðihlutfalli samfara breyttri aflareglu þar sem viðmiðunarhlutfallið var lækkað úr 25% í 20%. Lækkun á fiskveiðidauða síðustu 10 árin skilar sér þannig í því að við erum að veiða fiskinn 1 til 1,5 aldursári seinna og því hækkar meðalþyngd í afla.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.