Túnfiskveiðiskip frá Taiwan hafa leigt vopnaða verði um borð til að skipin geti veitt við strönd Sómalíu þar sem krökt er af sjóræningjum, að því er fram kemur á vefnum fis.com.

Verðirnir eru mjög vel vopnum búnir og nota meðal annars sjálfvirkar byssur til að fæla sjóræningjana burt. Kostnaður við verðina er mjög mikill en veiðarnar eru það ábatasamar að þær standa vel undir því. Hér er um að ræða veiðar á túnfisktegund sem nefnist glápari í sjávardýraorðabók Hafrannsóknastofnunar en enska heitið er bigeye tuna.

Túnfiskurinn er seldur á markaði í Japan. Japanskir fiskimenn eru ekki ánægðir með tiltækið. Samkvæmt japönskum lögum mega þeir ekki hafa vopnaða verði um borð og geta því ekki veitt á sömu miðum. Auk þess hefur framboð á þessari tegund túnfisks aukist í Japan og verð hefur lækkað um 15% frá sama tíma í fyrra.