Vard skipasmíðastöðin í Noregi hefur tryggt sér samning um smíði á fimm þjónustuskipum fyrir olíuiðnaðinn þar í landi, skip með svonefndu walk-to-work kerfi. Skipin flytja mannskap og vörur út í olíupallana sem staðsettir eru úti á rúmsjó þar sem veður gerast einatt válynd.

Hér eru á ferð sérhæfð skip sem líkjast helst farkostum úr vísindaskáldsögum, sem búin eru byltingarkenndum landgöngubúnaði og kerfum sem taka mið af öldugangi og sjólagi. Búnaður af þessu tagi gerir starfsmönnum kleift að ganga úr skipunum á vinnustaði sína vandræðalaust á hafi úti. Áður var mannskapur og vörur fluttar út á pallana aðallega með þyrlum. Walk-to-work kerfi eru hönnuð til að flytja búnað og vistir ekki síður en mannskap frá einu sjófari til annars. Skipin verða nýtt við viðhald og rekstur olíu- og gasborpalla úti á sjó og eru búin 3D, hreyfinæmum landgöngukerfum og 3D hreyfinæmum krönum. Sagt er frá þessu á heima síðu Vard en þar hefur enn ekki verið gefið upp hver viðskiptavinurinn er.

Hybrid-kerfi

„Ég þakka öllum sem komu að hönnun skipanna og hafa lagt sig fram á því sviði, tekist á við áskoranir með jákvæðu hugarfari og lausnamiðaðri hugsun. Án þessarar hópvinnu allra aðila hefði þetta ekki verið hægt,“ segir Ove Dimmen, markaðsstjóri Vard, í tilkynningu. Skipin eru byggð á Vard 3 32-hönnun og í þeim á að fara saman lág eldsneytisnotkun, mikil þægindi og háþróuð tækni. Skipin eru u.þ.b. 88 metra löng og 19,8 metrar á breidd. Þau eru búin virkum hreyfinæmum walk-to-work kerfum og virkum, hreyfinæmum 3D krana með 15 tonna lyftigetu úr 30 metra hæð. Um borð er verkstæði og lageraðstaða fyrir framleiðslu og varahluti, hybrid jafnstraumsrafhlöðukerfi með 2.700 kWst rafhlöðugetu og aðstaða verður um borð fyrir 190 manns.

Hjá Vard starfa yfir 7.000 manns. Höfuðstöðvarnar eru í Álasundi í Noregi en fyrirtækið er með skipasmíðastöðvar einnig í Rúmeníu, Brasilíu og Víetnam. Nýju þjónustuskipin verða smíðuð í Víetnam. Áætlaður afhendingartími þeirra er á árunum 2027 og 2028. Ýmis dótturfélög Vard sjá um framleiðslu og afhendingu búnaðar í skipin.