Ögmundur Knútsson Fiskistofustjóri fagnar átaksverkefni um að ráðist verði í kerfisbundið mat á brottkasti á Íslandsmiðum. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur samþykkt að greiddur verði styrkur til verkefnisins og Ögmundur segir að unnið verði hratt.
„Vonandi verðum við komin með bráðabirgðaniðurstöður úr þessu í byrjun sumars,“ segir hann og bætir því við að verkefnið eigi sér nokkurn aðdraganda. „Þetta hefur í bígerð býsna lengi. Við höfum verið að skoða ýmsa möguleika til þess að meta brottkast. Þarna erum við að fara í verkefni að reyna að meta brottkast út frá gögnum, nota tölfræðina á þetta. Og teljum að það geti gefið góða vísbendingu.“
Fiskistofa vinnur þetta í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og Daða Má Kristófersson prófessor.
Aðeins vísbendingar
„Daði Már og Hafró verða tölfræðin og vísindin á bak við þetta, og við erum svo með greiningar á gögnunum og úrvinnslu úr því. Við erum að bera saman gögn af svipaðri veiðislóð. Auðvitað verða þetta aldrei annað en vísbendingar um hvað sé í gangi, en þetta er ný nálgun og ég held að það geti orðið mjög áhugavert. Svo höldum við áfram okkar eftirliti með drónum. Og við höfum líka lengi verið í brottkastsverkefni með Hafrannsóknastofnun, sem hefur aðallega verið lengdarháð brottkast.“
Hann nefnir að Ísland hafi verið gagnrýnt fyrir að vera með frekar léleg gögn um brottkast.
„Fao hefur gagnrýnt okkur fyrir það og það er mjög mikilvægt fyrir okkur og greinina að sýna betur fram á umgengnina. Annars eru í hættu vottanir og aðgengi að mörkunum. Þannig að þetta ætti að vera sameiginlegt áhugamál greinarinnar og hins opinberra aðila að hafa þessar upplýsingar sem bestar.“
Tilraun með myndavélar
Fiskistofa er einnig á næstunni að hefja tilraunaverkefni með myndavélar um borð í skipum. Fyrst um borð í togara en ætlunin er að víkka það út þegar fram líða stundir.
„Við fengum heimild til þess með lögum í sumar. Það fylgir þessari þróun að sjálfvirknivæða og efla eftirlitið. Í lok dags er það allt gert til þess að styrkja stöðu greinarinnar.“
Hann segist sannfærður um að flestallir í greininni vilji hafa staðreyndir uppi á borði og tryggja að allt sé rétt.
Ómöguleiki í lögum
„En svo er ákveðinn ómöguleiki í þessu líka, sem stjórnvöld og löggjafinn verður að horfa á. Það er um úrræði fyrir bátaflokka eða útgerðarflokka að koma með alla fiska að landi. Til dæmis hefur grásleppukarlinn, sem á ekki kvóta, lítinn eða engan rétt á VS-kvóta. Það er pínu erfitt og ég vil kalla á löggjafann og stjórnvöld að fara í virkilega góða stúdíu á því til þess að gera úrræðin þannig að mönnum sé gert kleift að koma með allan afla að landi.“
Smábátasjómenn hafa sumir borið sig illa undan drónaeftirlitinu og tala um sparðatíning. Ögmundur segir samt lögin ekki bjóða upp á annað en að tekið sé eins á öllum brotum.
„Og hvað er sparðatíningur í þessu? Ef það er flogið yfir þig í tíu eða tuttugu mínútur, og þú ert að henda kannski fimm til tíu fiskum, hvað er það mikið brottkast í allri veiðiferðinni? Lögin eru ákaflega skýr, það á að landa öllum fiski. Það eru ákveðin úrræði í fiskveiðistjórnarlögunum, en eins og ég var að benda á þá kannski þarf að gera þetta eitthvað liprara fyrir menn að landa öllu.“
Allir útgerðarflokkar svipaðir
Hann segir reyndar að Fiskistofa hafi ekki orðið vör við neinn stórkostlegan mun milli útgerðarflokka, hvort sem það eru togveiðar, línuveiðar, dragnót eða krókar.
Landhelgisgæslan var með stóran dróna í notkun síðastliðið sumar þar sem reynt var að fylgjast sérstaklega með stærri skipunum.
„Þeir urðu varir við brottkast, ekki eins mikið enda var nærvera drónans mjög sýnileg fyrir flotann. Það dregur kannski svolítið úr gildinu, en þetta var áhugaverð tilraun. Fiskistofa er núna að vinna í því að fá langdrægari dróna, bæði með meira flugþol og langdrægni. Því einn dróni er alveg á við nokkra eftirlitsmenn.“