Hagsmunir smábátasjómenna voru ræddir í þaula á 38. aðalfundi Landssambands smábátaeigenda síðasta fimmtudag og föstudag. Arthur Bogason var endurkjörinn formaður, en þeir Arthur og Örn Pálsson framkvæmdastjóri komu víða við í ræðum sínum. Í ályktunum fundarins var einnig snert á mörgum þáttum sjávarútvegs eins og sjá má dæmi um hér á síðunni.
Örn fór meðal annars yfir útkomu síðasta fiskveiðiárs fyrir smábátasjómenn og sagði um strandveiðar sumarsins að þær hafi almennt gengið vel.
Aflaverðmæti á strandveiðum sumarið 2022 hafi orðið 4,7 milljarðar, sem gera að meðaltali 6,6 milljónir á hvern bát.
Heildarafli smábáta á síðasta fiskveiðiári var 77.685 tonn, sem er tæpum 8 þúsund tonnum minna en í fyrra. Aflaverðmætið jókst hins vegar og varð 29,4 milljarðar sem er aukning um 3,4 milljarða.
Krókaaflamarksbátum hefur aftur á móti fækkað flest undanfarin ár. Þeir voru 335 árið 2013-14 en aðeins 192 á yfirstandandi fiskveiðiári. Hins vegar sé þorskígildishlutdeild 50 stærstu krókaaflamarksbátanna komin upp í 94%, en hún var 74% fiskveiðiárið 2013-14.
Áhyggjur af flottrolli
Örn hóf mál sitt reyndar á því að ræða áhyggjur smábátasjómanna af loðnuveiðum með flottrolli, og spyr hvort samhengi sé milli þeirra veiða og stofnstærðar loðnunnar.
„Fyrir réttu ári var málflutningur Hafrannsóknastofnunar á þá leið að þjóðin mætti búast við tveimur góðum vertíðum í röð, þeirri sem þá var nýhafin og vertíðinni sem hefst innan skamms,“ sagði Örn. „Nú réttu ári síðast ráðleggur hafrannsóknastofnun að loðnuafli í vetur verði ekki meiri en 218 400 tonn. Þegar búast mátti við 800 þúsund tonnum er ráðgjöfin 73% lægri.“
Þá hafði ekki verið veitt með flottrolli í tvö eða þrjú ár, en slíkar veiðar verið heimilaðar aftur í tvo og hálfan mánuð á síðustu vetrarvertíð.
„Landssamband smábátaeigenda hefur margsinnis ályktað um notkun flottrolls við loðnuveiðar,“ sagði Örn. Og aðalfundurinn samþykkti tillögu um að algjört bann verði lagt við notkun flotvörpu við loðnuveiðar, og benti meðal annars að aldrei hafi verið betri grásleppugengd við landið.
Hjalið og spjallið
Arthur formaður ræddi í sinni ræðu meðal annars nefndavinnuna miklu sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ýtti úr vör í sumar. Sjálfur á Arthur sæti í samráðsnefndinni, ásamt fulltrúum annarra hagsmunaaðila í sjávarútvegi.
„Ég dreg ekki dul á þá skoðun mína að þessi nefndaskipan er ekki líkleg til mikilla afreka, og ég er ekki einn um þá skoðun meðal nefndarmanna. Hjalið inni í fundarsalnum er í engu samræmi við spjallið á planinu fyrir framan Nauthól þar sem samráðsnefndin hefur fundað.“
Arthur vék einnig máli sínu að orkuskiptum í smábátaflotanum.
„Eins og þið flest vitið hefur það verið gefið út af hendi matvælaráðuneytisins að strandveiðibátar sem rafvæðast fái heimild til að veiða heil hundrað kíló meira af þorski, tímabundið reyndar til eins árs. Með fullri virðingu, hverjum datt þessi vitleysa í hug.“
Hann sagði rafmótor í smábát kosta að lágmarki um það bil 40 milljónir. Fullsmíðaður rafvæddur smábátur í strandveiðarnar kosti því að lágmarki 70 milljónir.
„Þetta er svo galið að það er ekki orðum á það eyðandi.“
Drónar og brottkast
Þá ræddi hann einnig drónaeftirlit Fiskistofu:
„Af óútskýrðum ástæðum virðist það ekkert koma persónuverndarlögum við að mynda að vild þá sem vinna að opnum bátum, en ef ég skil hlutina rétt er ástæða þess að ekki hefur verið leyfilegt að setja upp eftirlitsmyndavélar á vinnuþilförum stóru skipanna vegna þessara sömu persónuverndarlaga,“ sagði hann.
„Brottkast er vitaskuld ólíðandi og við eigum ekki að láta það spyrjast um okkur. Á sama tíma verða stjórnvöld að skilja nauðsyn þess að fella í lög leikreglur sem gera mönnum kleift að koma með verðlausan eða svo verðlítinn fisk í land að óbreyttar reglur valda þeim í raun tjóni og kostnaði.“
Eftirlitinu sé samt að mestu beint gegn smábátaflotanum, enda hafi „trillukarlar stöðu grunaðs manns um leið og þeir sleppa spottanum.“
Á sama tíma hafi Fiskistofa „ekki upplýsingar um það hversu mörg stóru togveiðiskipanna eru með sérstakan vélbúnað um borð sem hakkar í spað það sem fara skal fyrir borð.“
Úr ályktunum aðalfundar LS
- LS mótmælir harðlega stöðvun strandveiða 21. júlí 2022. Skorar félagið á stjórnvöld að tryggja með lögum að þessar veiðar verði undanbragðalaust leyfðar að lágmarki í 48 daga.
- Aðalfundur LS mótmælir fyrirkomulagi eftirlits Fiskistofu með drónum. Verði drónaeftirlit viðhaft áfram skal gæta meðalhófsreglu og láta veiðigetu skipa ráða tíðni og umfangi eftirlits.
- Aðalfundur LS leggur til algjört bann við notkun flotvörpu við loðnuveiðar.
- Það er grundvallarskoðun LS að handfæraveiðar smábáta eigi að vera frjálsar við Íslandsstrendur.
- Aðalfundur LS leggur til að almennur byggðakvóti verði veiddur af dagróðrarbátum undir 30 brt.
- Aðalfundur LS samþykkir að stærðarmörk krókabáta verði óbreytt, hámarksstærð þeirra fari aldrei yfir 30 tonn.
- LS er andvígt kvótasetningu á grásleppu.
- Aðalfundur LS leggur til að aðferðafræði Hafrannsóknastofnunarinnar verði endurskoðuð frá grunni. Ennfremur verði beitt öllum þrýstingi sem mögulegur er á ráðherra og stjórnmálamenn að skapa grundvöll fyrir samkeppni í hafrannsóknum.
- Aðalfundur LS leggur til að ekkert fyrirtæki eigi meir en 12% samanlagða aflahlutdeild í aflamarki og krókaaflamarki.