Kínverskur skipstjóri taldi sig hafa komist í feitt er hann dró tveggja tonna risafisk um borð í skip sitt. Annað kom þó á daginn. Aflinn reyndist vera hvalháfur sem er friðuð fisktegund og á skrá yfir dýr í útrýmingarhættu.
Skipstjórinn sagði að háfurinn hefði rifið stórt gat á netið og étið allan fisk sem var í því. Sjálfur festist háfurinn svo í netinu. Skipstjórinn setti háfinn á bíl sinn, þegar í land var komið, og tók stefnuna á næsta fiskmarkað. Hann gerði sér vonir um að fá sem svarar um 200 til 400 þúsund krónum íslenskum fyrir háfinn. Það sást varla í bílinn svo stór var fiskurinn.
Fljótt flýgur fiskisagan. Fjöldi mynda var tekinn af þessum sérkennilega fiskflutningi og myndirnar settar á netið. Lögreglan sá myndirnar og brá skjótt við. Skipstjórinn var stöðvaður og fiskurinn gerður upptækur.
Hvalháfur er stærsti fiskur heims en heimkynni hans eru í hlýjum sjó. Hann getur orðið 12 metra langur og allt að 20 tonn að þyngd.