Norska fiskistofan, Fiskeridirektoratet, hefur kynnt tillögur sínar um leiðir til að koma í veg fyrir að kvóti safnis á of fáar hendir.
Stofnunin hefur þá afstöðu að í norska strandveiðiflotanum eigi enginn að ráða yfir yfir meiri aflahlutdeild í þorski, ufsa og ýsu en 1,5%.
Fiskeribladet í Noregi greinir frá þessu. Blaðið segir nánast öll hagsmunasamtök og stofnanir sammála um að hafa eigi þak á aflahlutdeild, en töluverður ágreiningur sé þó um það hvar setja eigi mörkin. Sá ágreiningur lýtur sérstaklega að þorsk-, ufsa- og ýsuveiðum.
Stefnt er að því að ákveða næsta haust hvert fyrirkomulagið eigi að verða.
Einnig er stefnt að því að kortleggja betur eignarhald útlendinga í strandveiðiflotanum, því um þá gilda að nokkru sérreglur.
Strandveiðibátar í Noregi stunda reyndar ekki strandveiði alveg í sama skilningi og lagður hefur verið í þetta orð hér á landi undanfarin ár. Norsku strandveiðibátarnir stunda öflugar veiðar allt árið en mun nær landi en úthafsveiðiskipin. Þeir landa auk þess jafnan í nálægum höfnum frekar en að sigla langt með aflann.
Vaxandi áhyggjur hafa verið af samþjöppun kvótahalds í Noregi, sérstaklega þegar kemur að veiðiheimildum í þorski, ufsa og ýsu.
Fiskeribladet nefnir að á síðasta ári hafi stærsti eigandinn í þorskveiði verið með 1,08% veiðiheimildanna, sem er ríflega tvöföldun hlutfallsins frá árinu 2006 þegar sá stærsti var með 0,46%.